Gróska til gleði – ræktunarverkefni fer af stað

Nemendur leikskóladeildar að fræðast með Samuel og Höllu

Nú eru fræin fari að spíra í Bláskógaskóla Laugarvatni. Skólinn er mikill útiskóli en núna er búið að færa náttúruna enn frekar inn

Þar hófst verkefnið Gróska til gleði og snýst um að efla matjurtarækt í skólanum með hjálp tækninnar.

Fræ til framtíðar, Homegrow frá Bandaríkjunum, FabLab og Bláskógaskóli Laugarvatni koma að verkefninu en þar er sett upp sérstök færanleg ræktunarstöð í skólanum.  Nemendur og kennarar skólans sjá svo um að rækta plönturnar um leið og þau prófa kerfið og námsefni sem þau þróa í samstarfi við Fræ til framtíðar og Homegrow. Framtíðarmarkmiðið er svo að sjálfvirknivæða ræktunarstöðina enn frekar með smátölvum, skynjurum og sérstöku appi sem að Homegrow er að þróa.

Það er óhætt að segja að verkefnið hafi nú þegar slegið í geng en mikill áhugi er meðal nemenda og kennara fyrir því. Bláskógaskóli Laugarvatni er samrekinn leik og grunnskóli, það býður upp á mjög spennandi möguleika í þessu verkefni þar sem að hægt er að prófa það hjá öllum aldurshópum. Stöðin hóf skólaárið í leikskólanum þar sem að nemendur þar fá að kynnast henni með sínum kennurum. Meðfylgjandi myndir eru frá heimsókn Samuel í leikskólann þar sem nemendur lærðu um plöntur, merktu þær og settu niður sína eigin lauka. Með verkefninu gefst nemendum tækifæri til að læra um plöntur og lífríkið og að smakka fjölbreyttar kryddjurtir. Nemendur í leikskólanum höfðu reyndar tekið forskot á sæluna í vor þegar þeir ræktuðu spírur (microgreens) til að borða. Það tókst vonum framar og nemendur voru fljótir upp á lagið með að bæta meira grænmeti í hádegismatinn sinn.

Ræktunarstöðin fer svo um skólann í vetur. Stefnt er að því að nýta hana í náttúrufræðikennslu á öllum stigum og leyfa henni að vera til staðar í matsalnum. Þar geta nemendur og kennarar náð sér í fjölbreyttar kryddjurtir og salat til að bæta út í hádegishressinguna.

Sérfræðingar Homegrow og Fræ til framtíðar verða skólanum innan handar eftir þörfum en þeir hafa lagt mikið á sig til að búa til þessa frumgerð. Í framtíðinni má sjá fyrir sér viðlíka stöðvar í öllum skólum þannig að alstaðar sé hægt að nýta þennan möguleika til náms og gleði. Starfsfólk og nemendur þakka þeim Gunnari hjá Fræ og Larissu og Samuel hjá Homegrow fyrir aðstoðina. Áhugi þeirra og innblástur er einstakur og það er svo sannarlega gaman fyrir skólann að taka þátt. Við þökkum einnig þeim fjölmörgu sem að hafa stutt við verkefnið á meðan það hefur verið í vinnslu. 

Verkefnið hefur fengið styrki og stuðning frá Fab Lab Íslandi, Fab Lab Ísafirði, Fab Lab Reykjavík,  Djúpinu Bolungarvík, Tækniþróunarsjóði, Munasafn RVK Tool Library, Samuel’s Food Gardens, Gróðrarstöðinni Ártanga ehf, Sólheimum og Matarauð Íslands svo eitthvað sé nefnt.

Áhugasamir geta svo heimsótt Facebook síðu skólans og heimasíðu í vetur þar sem stefnt er á að setja reglulega inn fréttir af verkefninu.