Við fögnum gæðamerki eTwinning!

Guðni Sighvatsson umsjónarkennari á unglingastigi vann á sl. skólaári frábært verkefni með sínum umsjónarhóp á unglingastigi. Við viljum óska honum og nemenda hópnum hans sérstaklega tl hamingju með flott verkefni og verðskuldaða viðurkenningu.

 

Við báðum Guðna um að útskýra betur um hvað verkefnið var.

 

Unglingastig Bláskógaskóla á Laugarvatni vann síðastliðinn vetur samstarfsverkefni á etwinning með skólum í Slóveníu og í Póllandi. Etwinning er samstarfsvettvangur þar sem kennarar geta búið til verkefni  og unnið saman í Evrópu. Verkefnið sem unnið var tekið fyrir í samfélagsfræði og var um gildin í skólastarfinu. Oft er mikil áhersla lögð á efnið sjálft sem lagt er fyrir en ekki síður er mikilvægt að staldra við og velta fyrir okkur hvernig manneskjur við viljum vera. Hvað endurspeglar okkar persónur og hvernig tileinkum við okkur gildin í samstarfi og samskiptum við fólkið í kringum okkur?

Eitt þema var tekið fyrir í hverjum mánuði. Í byrjun var farið í hvert gildi, það ústkýrt og nemendur síðan tengdu það við sitt líf. Var það mikilvægt? Erum við að haga okkar lífi eftir því?

Áhersla var lögð á að þau lærðu að elska sjálfan sig sem lykil að hamingjuríku lífi. Þau lærðu að með því að lifa heilbrigðu lífi og gera sér grein fyrir fjölbreytileika mannsins þá bætti það lífsgæði þeirra. Við ræddum um mikilvægi náms og að nám er ekki bundið við það sem þau gera innan veggja skólans, hefðir og trúarbrögð og einnig fíknir í víðtækum skilning.

 

Við ræddum svo stóra samhengið, frið og vinsemd og að við verðum öll að leggja til að góður starfsandi sé til staðar. Umburðarlyndi, þolinmæði, réttur barna og örlæti. Undir lokin skoðuðum við jörðina og okkar hlutverk að vernda hana með bættri umhverfismenningu.

Eftir að við kynntum okkur hvert hugtak í hverjum mánuði unnu þau svo verkefni sem þau fengu frjálsar hendur um. T.d. bjuggu þau sér til samskiptareglur á netinu, gerðu veggspjald sem kynnti fyrir hinum skólunum Ísland og fyrir hvað við stöndum að þeirra mati, þau gáfu góðverk í desember og lögðu sig fram að gera eitthvað fyrir aðra án þess að biðja um eitthvað í staðinn. Við ræddum skólareglur og hvernig við getum stundað nám í skólanum með gildi skólans ofið inn í okkar verk.

 

Þetta var gott verkefni til að fá nemendur til að líta inn á við og sjá að hvert og eitt þeirra hefur hlutverk og ábyrgð á eigin líðan. Þetta verkefni gaf okkur einnig tækifæri til að efla lýðræðið í skólastofunni því þau höfðu mikið um það að segja hvernig verkefnin voru unnin og hvernig þau tengdu við þau.

 

Verkefnið fékk svo viðurkenningu frá eTwinning og landsskrifstofa etwinning á Íslandi veitt því svo gæðamerki eTwinning sem veitt er fyrir framúrskarandi verkefni og bauð umsjónakennara á ráðstefnu í Suður Frakklandi undir lok október þar sem áhersla er lögð á lýðræðislega þáttöku í skólastarfi.

 

 

Kveðja, Guðni

 

Jólaverkefnið  þar voru tekin fyrir gildin, Umburðarlyndi og örlæti. Að gefa gjöf. Þau ,,gáfu“ gjafir með því að gera góðverk.