Þann 3. júní voru skólaslit Bláskógskóla.
Við birtum hér ræðu skólastjóra og myndir úr athöfninni.
Kæri útskriftarnemi, kæru foreldrar, kennarar, og aðrir gestir.
Núna er komið að skólaslitum vorið 2022.
Vorið kemur heimur hlýnar hjartað mitt.
Tímabilin og tímamótin eru mikilvæg. Að byrja og enda er oft skemmtilegt. Stundum erfitt. Við erum misjöfn eins og við erum mörg. Sumir upplifa spennu, kvíða við tímamót aðrir gleði eða tómleika. Í raun eru fáir sem upplifa alveg það sama. Það fer eftir reynslu okkar hverju sinni. Reynsla er líka eitthvað það mikilvægasta sem hver og einn á með sér. Lífið er ferðalag og á ferðalaginu öðlumst við reynslu sem varðar okkar viðbrögð og tilfinningar hverju sinni.
Skóla árið 2021-2022 hefur verið gott. Við höfum afrekað eins og alltaf mun meira en við gerðum ráð fyrir. Árshátíð okkar var stórkostleg og það sem var sérstaklega skemmtilegt að nemendur stýrðu verkinu og fengu góðar leiðbeiningar frá kennurum. Hugmyndir nemenda eru oft á tíðum bestu hugmyndirnar. Við þeim er tekið og þær settar í farveg í fallegri samvinnu kennara og nemenda. Það eru auðvitað og eðlilega stundum árekstrar í þeirri samvinnu bæði í árshátíðar verkefnum og í öðrum verkefnum skólastarfsins en það er líka eðlilegt. Við verðum að leyfa okkur að takast á um ólíkar skoðanir en læra síðan að það er líka allt í góðu að okkar skoðun eða okkar val verði ekki ofan á alltaf, í lýðræðinu virkar það þannig með virðingu að leiðarljósi. Búa til rými fyrir aðra.
Það er líka mikilvægt að vera meðvitaður um styrkleika sýna og veikleika. Við eigum þó að vera dugleg að efla styrkleika og skora á veikleika, hafa ef til vill húmor fyrir þeim. Það er svo magnað að við eigum einna erfiðast með að segja í hverju við erum góð.
Við ættum oftar að horfa til þess hver eru okkar mannlegu ágæti. Skapgerðastyrkleikar eru þeir persónulegu eiginleikar sem gera okkur kleift að ná ágæti. Þá þurfum við að þjálfa og iðka til að eiga í góðu samstarfi við samfélag okkar hverju sinni. Þeir eiginleikar sem sérstaklega er bent á eru þrautseigja, hugrekki, trú á réttlæti, að elska og að vera elskaður, forvitni, kímni og viska os.frv. Allir þessir eiginleikar eru misjafnir í hverri manneskju eftir reynslu hennar og persónuleika en það er mikilvægt að varpa ljósi á þá þætti sem hægt er að þjálfa og vera óhræddur við það að verða betri í því sem maður er ekki nógu góður í.
Við þurfum að vera beisk og gagnrýnin en á sama tíma þurfum við að sýna okkur mildi og hafa húmor, kímni fyrir þeim verkefnum sem fyrir okkur síður liggja.
Í skólanum eigum við að vera óhrædd að mæta áskorunum, stökkva yfir þær með góðri leiðsögn samnemenda, kennara og foreldra. En að vera samstíga og setja sameiginlegan skilning á verkefnið er mikilvægast af öllu. Það þurfa allir að vilja vel og hafa þá sameiginlegu trú á verkefninu.
Meðal þeirra verkefna sem við höfum verið að þróa hér í skólanum er lotukerfi bæði á mið og elsta stigi og gaman að sjá nemendur í sjálfstæðri vinnu í þeim verkefnum sem á áætlun eru. Þau sýna ábyrgð á eigin námi og geta valið hvað er best á byrja á. Stundum er valið að byrja á því sem er erfiðast og færa sig svo í það sem er skemmtilegra að kljást við. Stundum er betra að klára það sem er skemmtilegast og reyna síðan við það sem er erfiðara og það er auðvitað persónubundið hvað við viljum velja. En að hafa val er mikilvægt. Þetta reynist vel en það er auðvitað margt sem má lagfæra og laga og kennararnir þurfa í hvert sinn sem nýtt skólaár hefst að aðlaga kennsluhætti að þeim hóp sem þeir kenna hverju sinni.
Kennari í skóla eins og okkar þarf að hafa einstaka aðlögunarhæfni. Hann þarf að bregða sér í ólíkinda hlutverk og hafa til þess mikið af þeim skapgerðareinkennum sem nefndir voru hér að framan og þjálfa síðan þá sem eru honum ekki eðlislægir. Það eru sannarlega ekki litlar kröfur sem gerðar eru til kennara. Það er fyrir það að þakka hversu viljugur kennarahópurinn okkar er að fara í ólíkt hlutverk og öðlast þekkingu og hugrekki til kennslu í síbreytilegum heimi.
Ólíkar þarfir og ólíkar skoðanir á hlutverki þeirra eru jafnmargar og einstaklingarnir eru sem að skólasamfélaginu koma. Við höfum öll gengið í skóla og það getur oft verið gildishlaðið í okkar huga hvernig skólinn er eða hefur alltaf verið. Skóli er í raun ferli og ferðalag í ákveðið tímabil í lífi hvers og eins og upplifun og reynsla er misjöfn eftir því hver er að ferðast. Við þurfum, við sem fullorðin erum og búin að upplifa og ferðast í gegnum skólann, líka að vera tilbúin að leyfa öllum að ferðast í gegnum skólann sinn á sínum forsendum með sínum þörfum og öðlast sína reynslu. Sjá kostina og það jákvæða sem gerist á ferðalaginu og líka að mæta því erfiða, ósanngjarna og leiðinlega. Eftirminnilegustu ferðalögin eru þau sem reyna á og við náum að sigra á okkar eigin styrkleikum. Þar er líka mesti lærdómurinn þegar næsta ferðalag tekur við. Hugsum þetta aðeins.
Hér er dag erum við að kveðja gamalkunnan kennara sem hefur aldeilis ferðast í gegnum skólalífið, sem nemandi og kennari til fjölda ára. Hann hefur kennt nemendum sem hér sitja, hann hefur kennt mæðrum og feðrum þeirra nemenda og jafnvel mætti lengur telja. Hann hefur gengið hér um gagana yfirvegaður, taktviss og fyrst og fremst hokinn af reynslu og umhyggju fyrir nemendum og skólalífinu okkar hér á Laugarvatni. Það er ómetanlegt að fá að starfa með Bjarna Þorkelssyni. Ég man eftir okkar fyrsta samtali hér, þegar hann sótti hér á ný aftur um starf fyrir 5 árum síðan að ég ætlaði að selja hjá honum hugmyndina um teymiskennslu sem ég gat nú alveg ímyndað mér að yrði áskorun að selja honum þá hugmynd. Hann sem hafði hér verið skipstjórinn í sinni kennslu og hafi aldeilis þekkingu og þor til þess.
Hann horfði á mig og sagði eins og sannir kennarar segja: ,, já þú segir nokkuð. Ég er tilbúinn að prófa það. Hef ákveðnar efasemdir. En ég skal gera mitt besta“.
Það akkúrat gera sannir kennarar, þeir gera sitt besta. Vita þó að það getur verið áskorun en takast á við hana. Enn það var líka skemmtilegt ferðalag þar sem efasemdir urðu að ánægju.
Það er gott að hafa Bjarna í húsi og hér var sérstaklega óskað eftir honum í vetur til að líta við og fara yfir ljóðagerð með unglingunum. Taktvisst þrammið í svörtu klossunum er vinalegt hljóð sem fyllir skólann af ró og yfirvegun. Við höfum verið heppin hér skólasamfélagið á Laugarvatni og eiga mikið í honum Bjarna og hann í okkur. Það verður því áfram þannig að til hans verður leitað í þeim verkefnum og án þess að spyrja hann formlega veit ég svarið!
Takk kæri Bjarni minn og mig langar að bjóða þér hér að þiggja örlítinn þakklætisvott fyrir allt og allt.
Í ár er einn útskriftarnemandi að útskrifast úr skólanum og það er hún Henný Lind Brynjarsdóttir.
Hún kom til okkar þegar hún var í 4 bekk og hefur sýnt einstaklega mikla aðlögunarhæfni í þennan tíma sem hún hefur stundað nám hjá okkur. Hún hefur með sinni einstakri þolinmæði og sanngjarni framkomu verið sér til sóma í öllu því sem hún hefur tekið sér fyrir hendur.
Það var einstaklega gaman að heyra að nemandinn sem er einn í árgangi hafi sýnt afburðar félagsfærni á skólabúðunum á Laugum. Það er ekki alltaf saman sem merki að vera í fjölmennum bekk og vera góður í félagsfærni. Það býr oft í okkur sjálfum og okkar reynslu.
Við erum stolt af þér elsku Henný Lind og hlökkum til að fylgjast með þér þenja seglin á lífsins braut.
Kærar þakkir fyrir skólaárið 2021-2022.