Skólinn okkar, Bláskógaskóli á Laugarvatni tekur þátt í Erasmus+ verkefni 2021-2022 ásamt tékknesku samtökunum Pangea. Verkefnið er kallað Lýðræðisleg viðhorf barna og er sambland af tékknesku verkefni Fræðsla til dyggða (www.vychovakectnostem.cz) og útikennslu hér í Bláskógaskóla.
Fræðsla til dyggða með dyggðakortum hefur verið markvisst kennd í leikskóladeild skólans undanfarin tvö ár og flæðir vel með og styður við aðrar kennsluaðferðir sem nú þegar eru notaðar í skólanum svo sem ART (e. aggression replacement training) og Vináttuverkefni (d. Fri for mobberi) ásamt því að falla vel að og styrkja sjálfstæði barnsins, frjálsan leik og félagsleg samskipti innan sem utan skólans.
Dyggðakennslan hefur vaxið vel innan Bláskógaskóla og síðastliðinn apríl fóru fjórir kennarar frá skólanum í viku ferð til Tékklands og lærðu þar kennsluaðferðir í Fræðslu til dyggða. Kennararnir fjórir komu af öllum skólastigum innan Bláskógaskóla, frá leikskóla upp í unglingastig. Þeir tóku þátt í smiðjum og æfðu sig í skólum þar sem Fræðsla til dyggða er notuð og lærðu þannig hvernig á að nota dyggðaspjöldin og hvernig hægt er að vinna í skólum, inni á heimilum eða í frístundastarfi með spjöldin. Skólarnir sem heimsóttir voru eru: Fimm stjörnu Montessori skólar í Brno og einnig Dobromysl skólann í Prag. Heimsóknirnar í skólana og vinnustofurnar voru heilir dagar uppfullir af fræðslu og miðlun þekkingar.
Í maí fengum við svo tékknesku kennarana sem taka þátt í Erasmus + verkefninu með okkur í heimsókn til okkar að Laugarvatni. Þau fræddust um útiskólann okkar og þær kennsluaðferðir og leiðir sem við nýtum okkur í nærumhverfinu á Laugarvatni. Þau tóku þátt í útiskóladögum með öllum þeim aldurshópum sem stunda nám í Bláskógaskóla. Leikskólabörn og unglingastig og allir þar á milli. Útiskóli á sér langa hefð á Laugarvatni og við erum mjög stolt af því að deila þeirri upplifun og hvetja tékkneska kennara til þess að nýta sér þá reynslu.
Tékknesku gestirnir okkar gerðu sér því betur grein fyrir hvernig útiskólinn fer fram og fengu betri mynd af framkvæmd hans, hugmyndafræðinni og kennsluaðferðunum á bak við útskólann.
Má nefna að nemendur miðstigs kynntu fyrir þeim, á ensku, bílaverkefni sem þau hafa unnið að í vetur, þar sem þau telja fjölda bíla er keyra í gegnum þorpið og tegundir þeirra einnig og setja upp í súlurit. Unglingastigið fræddi þau um fuglaverkefni og fuglatalningar sem unnið hefur verið af nemendum unglingastigs í nokkur ár. Ásamt því að fara í útiskóla með leikskólanemendum og yngsta stigi. Í lok vikunnar var haldin málstofa þar sem tékknesku kennararnir buðu upp á grunnkennslu og fræðslu um dyggðaverkefnið og kynntu dyggðakortin fyrir þeim kennurum og foreldrum leik og grunnskólans sem ekki höfðu áður kynnst kortunum.
Verkefnið um Lýðræðisleg viðhorf barna mun halda áfram inn í næsta skólaár. Skrifaður verður bæklingur þar sem fléttað er saman útiskólanum við Fræðslu til dyggða og sýndar þær kennsluaðferðir sem notaðar eru og byggja á reynslu og þekkingu tékkneskra og íslenskra kennara í þeim efnum.
Við höfum séð hversu mikilvægt og nærandi það er fyrir börn að fá tækifæri til að læra í náttúrulegu umhverfi og í vinalegu samfélagi. Við teljum að dyggðaspjöldin séu frábært verkfæri til að styðja við og styrkja þær kennsluaðferðir sem fyrir eru í skólanum ásamt því að ýta undir persónulegan þroska og dýpri skilning á óhlutbundnum orðum og hugtökum dyggða og gilda.
Markmið okkar í Bláskógaskóla er að gera kennslu með þessu verkfæri að veruleika, læra um notkun dyggðaspjaldanna og finna leiðir til að þróast með nemendum okkar í leik og starfi.