Í dag var bleikur dagur í skólanum og allir tóku þátt á einhvern hátt í því verkefni. Það var allt í góðu að vera ekki í bleiku því við erum jú öll með bleika tungu. Við lögðum okkur öll fram um að njóta dagsins og sýna samstöðu með bleika deginum. Bera virðingu fyrir vitundarvakningu um krabbamein og alla þá sem það hefur áhrif á.
Það var frábær salur hjá unglinastigi sem bjó til fallegt leikrit í tilefni dagsins þar sem sýnt og sagt var frá eigin reynslu og hvaða áhrif það getur haft á þá sem standa nærri manneskju sem er með krabbamein. Það var svo fallegt hvað leikhópurinn náði á skapandi hátt að útskýra ferlið og leyfði okkur áhorfendum að sitja hugsi hjá, suma með tár á hvarmi.
Vináttan var líka stór liður í skólastarfinu okkar í vikunni. Eins og svo oft áður og eins og aðrir finnum við til með þeim sem upplifa einelti. Það hafa verið miklar umræður um slíkt í þjóðfélaginu í dag og nemendur okkar eins og nemendur annarra skóla rætt um hversu erfitt sé að upplifa slíkt.
Kennarar, starfsmenn og stjórnendur hafa öll verið til staðar í þeirri umræðu og stutt við og leiðbeint, unnið verkefni tengd vináttu og tekið umræðuna. Það er gott að kveðjast eftir vikuna með mörg vináttuverkfæri í töskunni.
Við hvetjum foreldra til að taka umræðuna um slíkt heima og hvað það sé mikilvægt að í samfélögum sýnum við umburðarlyndi, fögnum fjölbreytileika í allri sinni ólíku mynd.