Skólahreysti

Miðvikudaginn 17. apríl hélt hópur nemenda á unglingastigi Bláskógaskóla og Kerhólsskóla saman í Laugardagshöll til að taka þátt í skólahreysti. Sú keppni er búin að skipa sér sess sem skemmtileg viðbót við skólastarf nemenda þar sem tveir keppendur af hvoru kyni taka þátt í hreysti og keppa við aðra skóla. Sérstaklega er gaman hve mikið er gert úr þátttöku annarra nemenda sem koma í búningum og skreyttir þeim lit sem einkennir þeirra lið en í ár fengum við að vera fjólublá. Nemendur höfðu undirbúið sig vel, keppendur með æfingum og stuðningliðið með skiltum og fánum. 

Mikil stemning var í höllinni og er skemmst að segja frá því að keppendur okkar stóðu sig virkilega vel og vann til að mynda Friðrik Smárason keppni í dýfum. Niðurstaðan var svo þriðja sætið og miðað við fögnuðinn hefði mátt ætla að fyrsta sætið hefði verið niðurstaðan. Að lokinni keppni fór svo hópurinn og borðaði saman flatbökur og hélt svo heim á leið með bros á vör og drauma um næstu keppni að ári.