Fimmtudaginn 7. september hljóp Bláskógaskóli Ólympíuhlaup ÍSÍ. 

Þetta hlaup sem áður var kallað skólahlaupið er þreytt á hverju ári að hausti og hefur Bláskógaskóli jafnan tekið þátt og hlaupið orðið að hefð í skólanum. Að þessu sinni fóru allir nemendur skólans að lágmarki 2.5 kílómetra og auk þess fór leikskólinn af stað til þess að hvetja hlauparana.

Leiðin var frá skólanum út Hrísholt, þaðan var farið niður að vatni og hlaupið meðfram því að íþróttavellinum þar sem tekinn var einn hringur áður en haldið var aftur að skólanum. Starfslið skólans skipti sér niður á stöðvar og héldu uppi stuðinu með tónlist og hvatningu sem svo sannarlega skilaði sér því samtals lögðu nemendur 300 kílómetra að baki. Metfjöldi nemenda hljóp fjóra hringi sem voru samtals 10 kílómetrar en það gerðu 12 nemendur að þessu sinni.

Leikskólinn lét sér ekki nægja að hvetja heldur fóru þau samtals 28 hringi á íþróttavellinum. Gríðarlega góð stemning var þennan dag í léttum úða og þeir nemendur sem kláruðu sitt hlaup fóru strax í að hvetja og finna til vatn fyrir þá sem lengra fóru.