Skólareglur
Grunnskóli Bláskógabyggðar væntir þess að:
- nemendur skólans séu prúðir og sýni kurteisi og sanngirni í samskiptum jafnt utan skóla sem innan.
- nemendur hlýði fyrirmælum alls starfsfólks skólans á meðan þeir dvelja í skólanum, skólabílnum, skólalóð eða annarsstaðar á vegum skólans.
- nemendur séu stundvísir og stundi nám sitt af alúð og vandvirkni. Að þeir hafi með sér þær bækur og kennslugögn sem nauðsynleg eru hverju sinni.
- nemendur gangi vel og snyrtilega um umhverfi og allt húsnæði skólans, gangi frá yfirhöfnum og útiskóm í forstofu og noti hefðbundna inniskó innandyra.
- öll meðferð tóbaks og annarra vímuefna er stranglega bönnuð í öllu starfi skólans.
- notkun G.S.M. síma er stranglega bönnuð í kennslustundum svo og notkun tyggigúmmís.
- þeir nemendur sem koma með verðmæti í skólann gera það á eigin ábyrgð.
Heimilt er að víkja nemanda úr kennslustund trufli hann ítrekað aðra nemendur og fari ekki eftir tilmælum kennara eða láti sér ekki segjast við áminningu hans. Skólastjóri/aðstoðarskólastjóri tekur þá við nemandanum og ræðir við hann um agabrotið. Jafnframt er nemandanum gefinn kostur á því að tjá sig um málið og skal haft samband við foreldra/forráðamenn um agabrotið. Við alvarleg eða endurtekin brot á skólareglum er heimilt að víkja nemandanum úr skóla um stundarsakir.
Um meðferð alvarlegra og endurtekinna brota á skólareglum er vísað til laga um grunnskóla nr. 95/1995 og reglugerðar um skólareglur og aga í grunnskólum nr. 385/1996 og nr. 270/2000.